
Kynning á reiknivélanotkun:
Við höfum veitt því athygli að nemendur eru oft fákunnandi á
reiknivélar. Þess vegna varð að ráði
að sýna notkun á einni algengri tegund af reiknivél við viðfangsefnin í bókinni. Það er skoðun okkar að notkun reiknivéla sé
sjálfsögð, en með verkefnavali og sérstökum reglum um hjálpargögn á prófum megi
koma í veg fyrir ofnotkun þeirra.
Tegundir reiknivéla eru margar og þær mismunandi að ýmsu leyti. Því er ekki hægt að gefa leiðbeiningar sem
eiga við þær allar. Nauðsynlegt er að
nemendur lesi þær handbækur sem fylgja reiknivélunum til að þær komi að fullum
notum. Í þessum leiðbeiningum er miðað
við tegundina CASIO þar sem hún mun vera algengust í skólum. Þær gerðir sem við höfum til viðmiðunar eru
fx-vélar,
bæði einfaldar og grafískar. Notkun
þessara reiknivéla verður sýnd smátt og smátt eftir því sem námsefnið gefur
tilefni til. Þótt tekið sé mið af
ákveðinni gerð reiknivéla, þá ættu leiðbeiningarnar að geta hjálpað nemendum
sem eiga aðrar tegundir.
Komnar eru á markaðinn reiknivélar sem ráða við bókstafareikning, en
þær eru nokkuð dýrar og flóknari en þær sem hér er lýst. Reiknivélar eiga ekki að losa nemandann undan því að ná leikni
í talna- og bókstafareikningi án hjálpartækja. Slíkt
myndi skaða skilning hans á námsefninu.
|